Ágústa Johnson hugsar vel um líkamann án þess að fara út í öfgar. Hún er hreystið uppmálað en kann um leið að njóta lífsins lystisemda.
Okkur lék forvitni á því að vita hvernig jólin eru hjá Ágústu og hvað hún borðar, og fengum við hana því í smá spjall. En auk þess gaf hún okkur líka uppskrift að ís sem ávallt er búinn til um jólin á hennar heimili.
Hver skyldi besta jólaminning Ágústu vera?
Þær eru margar, get varla valið eina. En það sem stendur upp úr er að upplifa ósvikna gleði og spenning barnanna. Ein af betri slíkum jólaminningum er þegar við fengum Stúf í heimsókn á aðfangadagsmorgun. Tvíburnarnir okkar voru 5 ára og það er erfitt að skera úr um hvort naut upplifunarinnar meira þau eða foreldrarnir.
Hver var jólamaturinn á þínu heimili þegar þú varst að alast upp?
Það voru rjúpur og Ris a la mande á jólunum hjá okkur í minni æsku og ég ólst lengi vel upp við að finnast maturinn á jólunum vondur. Ég kann þó heldur betur vel að meta rjúpur í dag, eitt það besta sem ég fæ og þá eldaðar á nýja mátann, bringurnar snöggsteiktar örstutt og í ofn í nokkrar mínútur.
En er einhver jólahefð sem þú ólst upp við sem þú hefur haldið?
Nei í raun ekki, ég ólst upp við að jólin voru haldin hjá ömmu minni þar til ég var 13 ára og eftir það skapaðist sú hefð að fjölskyldan hélt jólin í Lech í Austurríki næstu 10 árin og við það fóru allar hefðir fyrir ofan garð og neðan.
Hvað ætlið þið fjölskyldan að borða á aðfangadag?
Við borðum alltaf kalkún á jólunum og börnin taka ekki í mál að breyta því. Við borðum svo alltaf rjúpur á milli jóla og nýárs. Því þrátt fyrir að mér hafi ekki líkað rjúpurnar sem barn þá er í mínum huga hinn sanni jólailmur þegar húsið fyllist af lyktinni af rjúpunum.
Og hver eldar jólamatinn á heimilinu?
Ég sé alltaf alfarið um jólamatinn.
Hvað er í þínum huga alveg ómissandi að fá á jólum?
Við erum með ótrúlega elegant franska uppskrift af Ris a la mande sem pabbi kokkar í marga klukkutíma á Þorláksmessu og hefur gert í mörg ár. Við systkinin pöntum iðulega öll smá skammt til að hafa í eftirrétt enda finnst okkur þessi eftirréttur hluti af fullkomnum jólum.
Hvenær skreytið þið jólatréð, eða er kannski búið að því?
Við skreytum tréð 22. des. Það er hefð.
Ertu ein af þeim sem geymir að kaupa eina gjöf þar til á Þorláksmessu?
Nei ég vil helst klára að kaupa allar jólagjafir fyrir 1. des. En það hefur ekki tekist hingað til. Ég reyni að forðast einst og ég get að fara í verslanir eftir 15. des. Þá ganga hlutirnir aðeins of hægt fyrir minn smekk.
Hvað langar þig mest í í jólagjöf?
Samverustundir með eiginmanninum og börnunum kemur mér fyrst í hug. Aldrei nóg af þeim. Maður á svo sem nóg af dóti þó alltaf geti maður á sig blómum bætt 🙂
Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2016?
Hef engar sérstakar væntingar en vona að árið verði gæfuríkt og verði uppfullt af dýrmætum gleðistundum fyrir minningabankann.
Hér er uppskriftin að ísnum sem Ágústa gerir alltaf fyrir jólin.
Toblerone ís
6 egg
6 msk sykur
100 gr brætt Toblerone
3 pelar rjómi eða 7 dl
400 gr saxað Toblerone
Aðferð
Brjótið eggin og setjið rauðurnar í skál og geymið eggjahvíturnar í annarri skál.
Þeytið rauðurnar saman við sykurinn.
Blandið brædda súkkulaðin saman við.
Þeytið rjómann og blandið honum saman við ásamt saxaða súkkulaðinu.
Stífþeytið þá eggjahvítur og blandið þeim varlega saman við.
Setjið í form og frystið.
Þegar ísinn er tekinn úr frystinum setjið þá saxað Toblerone ofan á hann áður en hann er borinn fram.