Eins og gefur að skilja er desember annasamur mánuður hjá Jónu Hrönn Bolladóttur en hún er sóknarprestur í Vídalínskirkju í Garðabæ. Jóna Hrönn er vön því að mikið sé um að vera í þessum mánuði ljóss og friðar enda alin upp á prestsheimili.
Þrátt fyrir mikið annríki gaf Jóna Hrönn sér tíma í stutt spjall við okkur um jólin fyrr og nú.
Við byrjuðum á því að spyrja hana hver væri ein hennar besta jólaminning
Mér fannst svo yndislegt þegar ég var barn og mamma var búin að þvo og strauja sparirúmfötin og skipta á öllum rúmum á Þorláksmessu og svo var farið i í jólabaðið og mamma keypti ný nærföt á allan barnahópinn sinn og mér fannst alveg dýrlegt að leggjast upp í og vita að morgunin eftir væru jólin komin með allri sinni gleði og hátíðleika.
En hver var jólamaturinn á þínu heimili þegar þú varst að alast upp?
Þegar ég var að alast upp voru alltaf rjúpur á aðfangadag og jólagrauturinn frá henni ömmu Hlín. Það komu margir til að veiða rjúpur í Laufásnum á uppvaxtarárum mínum en ég er alin upp í Laufási við Eyjafjörð. Pabbi var þar prestur en veiddi ekki sjálfur en fékk alltaf gefins nokkrar fyrir jólin. Svo var alltaf hangikjöt með heimagerðu rauðkáli sem var soðið upp úr krækiberjsaft.
En er einhver jólahefð sem þú ólst upp við sem þú hefur haldið?
Já, ég fór alltaf í messu með pabba kl.16 á aðfangadag í Svalbarðskirkju við Eyjafjörð og þar sem ég fetaði í fótspor hans þá fer ég alltaf í messu kl.18 eða kl.23:30 þetta kvöld þar sem ég er þjónandi prestur.
Og hvað verður á borðum hjá þér um jólin?
Eiginmaðurinn mun elda andabringur á aðfangadag og svo verður auðvitað hangikjöt með heimagerðu rauðkáli á Jóladag eins og hjá mömmu.
Þannig að sóknarpresturinn fær frí frá eldamennskunni á aðfangadag?
Við hjónin erum bæði prestar og ég hef alltaf eldað jólamatinn þar til í fyrra. Þá var hann hættur sem sóknarprestur og gerðist sjálfstætt starfandi prestur og því hafði hann allt í einu rýmri tíma og eldaði, sem mér fannst algjör lúxus og það verður eins í ár.
Hvað er í þínum huga alveg ómissandi að fá á jólum?
Jólagrautinn hennar ömmu með krækiberjasaft, en ég læt uppskriftina fylgja með svo aðrir geti sannreynt gæði hans.
Hvenær skreytið þið jólatréð, eða er kannski búið að því?
Ég er alin upp við að það sé skreytt á Þorláksmessu og kveikt á ljósunum á aðfangadagskvöld. Ég hef að vísu breytt þessari hefð af því að það er oft dálítið annasamt hjá mér á aðventu og því geri ég það þegar tími gefst. Ömmustelpunni minni finnst ég ótrúlega dugleg að skreyta en ég er hræðilega glysgjörn og hún segir að það sé af því að ég hlakki svo til jólanna, svo ég ætla að skreyta tréð snemma núna til að viðhalda þessari sýn stelpunnar minnar.
Ertu ein af þeim sem geymir að kaupa eina gjöf þar til á Þorláksmessu?
Nei, aldrei. Ég byrja að kaupa jólagjafir í sumarfríinu mínu svo það verði engin streita á aðventunni og líka ef eitthvað kæmi fyrir mig þá eru jólagjafirnar klárar og engin færi í jólaköttinn.
En langar prestinn í eitthvað sérstakt í jólagjöf?
Ég á svo mikið að mér finnst það nánast frekja að hafa einhverjar slíkar óskir, en ég væri ótrúlega glöð ef það væri gott veður yfir jólahátíðina og allir kæmust ferða sinna.
Hvaða væntingar hefurðu fyrir árið 2016?
Ég hef miklar væntingar um hver áramót, ég á von á þriðja ömmubarninu vorið 2016 og það fyllir mig svo mikilli gleði. Væntingar mínar eru þær að félagsauður og gagnkvæmur skilningur aukist manna á milli á Íslandi. Það væri gæfuspor fyrir samfélag okkar!
Og hér er uppskriftin að jólagrautnum hennar ömmu
Jólagrautur með krækiberjasaft
1/2 líter rjómi
4 matarlímsblöð (lengri gerðin)
1 tsk vanilludropar
1 poki fljótsoðin hrísgrjón
1 msk sykur
Sósan
Krækiberjasaft
Kartöflumjöl
Aðferð við grautinn
Sjóðið hrísgrjónin og kælið.
Stífþeytið rjómann og blandið vanilludropum og sykri saman við.
Setjið matarlímið í glas eða könnu, hellið köldu vatni yfir og látið liggja í bleyti í 10 mínútur.
Vatninu er síðan hellt af, glasið sett í lítinn pott og hitað. Matarlímið linast þá upp. Hrærið vel í glasinu á meðan.
Setjið matarlímið út í rjómann og hrærið snögglega saman við. Passið að matarlímið sé ylvolgt, ekki of kalt og ekki of heitt.
Að síðustu er grjónunum hrært saman við blönduna, hún er sett í skál og kæld.
Aðferð við sósu
Hitið krækiberjasaft í litlum potti.
Hrærið eina matskeið af kartöflumjöli í glas af vatni og blandið saman við sjóðandi krækiberjasaftina.
Hana má svo þykkja eftir smekk.
Sósunni er hellt yfir grautinn þegar hann er snæddur.