Og þá klassísk jólasaga í tilefni af því að jólasveinarnir fara að koma til byggða.
Þegar ég var fimm ára gamall og bróðir minn sjö ára, gerðist það rétt eins og nú að sveinkar byrjuðu að streyma til byggða og gefa börnunum í skóinn. En þrátt fyrir að vera bæði þægur og góður, fara snemma í háttinn og tannbursta sig fyrir svefninn, varð Jón bróðir minn frekar niðurlútur fyrstu dagana eftir heimsóknir jólasveinanna.
Stilltur og góður en fékk samt ekkert í skóinn
Foreldrum okkar til furðu en jafnframt mikillar ánægju, gerðist bróðir minn æ kurteisari (var erfitt en tókst þó), hjálpsamari við heimilisstörf, iðnari, ljúfari og almennt betri, en jafnframt mun, mun alvarlegri og hljóðari en á sama tíma varð ég æ glaðlyndari og eilítið búttaðri.
Daginn eftir að sjötti jólasveinninn kom til byggða brast bróðir minn hins vegar í grát og meðan tárin streymdu niður kinnarnar, spurði hann móður mína milli ekkasoganna hvort hann væri virkilega svona óþekkt og vont barn. Móðir okkar skildi ekki spurninguna, þaðan af síður hvernig barninu dytti í hug að það væri eitthvað annað en fyrirmynd annarra barna, en forvitnaðist um ástæðuna meðan hún þerraði tárin og huggaði barnið.
Bróðir sagðist þá ekki hafa fengið neitt í skóinn frá jólasveinunum sex en á sama tíma hefði Denni bróðir hans alltaf fengið í skóinn, bæði nammi og dót, stundum á við tvo, en samt hefði hann oft verið óþekkur, hjálpaði aldrei til á heimilinu og væri baldinn. Í barnslegri einlægni sinni skildi hann einfaldlega ekki hvernig þetta gat gerst.
Mamma ákvað að komast til botns í málinu
Mamma var jafn undrandi enda vissi hún sem var að drengirnir höfðu báðir fengið í skóinn hina ágætustu súkkulaðimola og smádót og bróðir minn stundum ívið meira, enda verið þægari og hjálpsamari, svo hún maldaði í móinn og þrætti fyrir þetta…fyrir hönd jólasveinanna. Bróðir minn stóð hins vegar fastur á sínu; hann hefði ekkert fengið í skóinn fyrir þessi jól.
Þetta kvöld ákvað mamma að komast til botns í málinu og þegar hún heyrði að jólasveinninn var búinn að koma við hjá okkur úti á Nesi og lauma góðgæti í skó okkar bræðra, læddist hún að svefnherbergisdyrum okkar (við deildum herbergi á þessum árum) og fylgdist með drykklanga stund.
Og viti menn; vaknaði ekki undirritaður og gekk rakleiðis að skó bróður míns, át allt sælgætið úr hans skó, skildi mitt eftir, færði smádótið hans yfir í minn skó svo haugurinn tvöfaldaðist og fór svo aftur að sofa. Þetta hafði ég augljóslega gert eftir hverja heimsókn jólasveinanna fyrir þessi jól. Afleiðingin var að sú að þrátt fyrir að vera afar þægur og góður uppskar bróðir minn ekki neitt en ég fékk tvöfaldan skammt.
Hvernig mamma fór að því að útskýra fyrir bróður mínum hvers vegna jólasveinarnir sex klikkuðu veit ég ekki, en hitt veit ég að eitthvað voru næstu sex jólasveinar sparsamir þegar þeir settu í minn skó en óvenju örlátir til hans.
Og þetta er sagan af því hvernig Jón bróðir minn fékk viðurnefnið „góði“, eða nei, það var önnur saga…
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Frá ritstjórn: Þess má geta að bróðir Steingríms, sem hér um ræðir, er Jón Ólafsson tónlistarmaður.