Haustið er svo skemmtilegur tími þegar kemur að fatnaði og skóm. Tískan í haust er margvísleg og einkennist hún af nokkrum tímabilum eins og til dæmis „seventís“ tískunni, skemmtilegu bóhem og „sixties“.
Útvíðu buxurnar komnar aftur
Með „seventís“ tískunni koma útvíðu buxurnar aftur. En þótt buxurnar séu að víkka út að neðan og kvartbuxur séu farnar að sjást er langt þangað til við hættum að vera í þröngum og niðurmjóum gallabuxum. Við, íslenskar konur, erum alltaf til í eitthvað nýtt og bíðum yfirleitt spenntar eftir nýjungum í upphafi hverrar árstíðar. En þegar kemur að buxnatískunni erum við frekar íhaldssamar. Þegar útvíðu buxurnar voru síðast í tísku og niðurmjóu buxurnar voru að detta inn ætluðum við aldrei að fá íslenskar konur til að meðtaka það. Og við hér á Íslandi vorum að selja útvíðar buxur í 2-3 ár eftir að konur í flestum löndum í kringum okkur voru komnar í þröngar niðurmjóar buxur.
Svíarnir eru yfirleitt fyrstir að meðtaka nýjungar á Norðurlöndunum, en við komum fast á eftir og þá sérstaklega yngri kynslóðin. Ég heyri samt hjá mjög mörgum konum að þær ætli aldrei aftur í þessar útvíðu buxur… en við sjáum til. Ég er nefnilega viss um að þær eigi eftir að falla fyrir þeim á endanum.
Kjólar í öllum síddum
Í haust er mikið um mussur og kjóla úr munstruðu efni, í „ethnic“ munstri sem og blóma og grafísku munstri. Þá eru kjólarnir í öllum síddum – við sjáum t.d. kjóla í hnésídd í „ethnic“ munstri og styttri sixties grafísk mynstur og svo alveg skósíða og hippalega kjóla í rómantísku blómamunstri.
Séu skósíðu kjólarnir notaðir hversdags er flottast að vera í flötum skóm við þá en styttri kjólarnir þola alveg smá hæla. Hælarnir eru að þykkjast mjög í anda „seventís“ tískunnar – kubbahælar þykja núna mjög flottir en það er svo stutt síðan manni fannst þeir alls ekki málið.
Smellt pils úr rúskinni og gallaefni, mjög svona „seventís“ og „sixties“, koma sterkt inn seinna í vetur og eru nokkrar flottar týpur farnar að sjást í þeim eins og útvíðu buxunum. Flott tíska og pilsin eru svo klæðileg.
Samfestingaæðið heldur áfram og ég hugsa að samfestingar verði mjög vinsælir þessi jólin. Þeir hafa verið inni lengi en nú virðast samfestingar vera inni hjá öllum aldurshópum. Þessi tíska byrjaði hjá yngri kynslóðinni en nú eru konur á öllum aldri áhugasamar um að klæðast samfestingi enda eru sniðin svo mismundandi. Þeir koma með og án erma og svo líka flottir „tube“ samfestingar ( með berar axlirnar) og smart er að klæðast litlu kögursjali yfir.
Rúllukraginn er málið
Peysur í öllum gerðum – lokaðar, opnar, stuttar og síðar eru mjög vinsælar áfram og þá gjarnan í fallegri mjúkri ull, mohair, cashmere og bómull. Og í litum eins og koníaksbrúnu, antikbleiku, dökkbláu, gráu, brúnu og svörtu. En svarti liturinn selst samt eiginlega síst í peysum og er það upplifun út af fyrir sig því oftast seljum við langmest í svörtu. Ljósar kaðlapeysur, og í ýmsum fleiri litum, eru líka vinsælar. Þá eru hnésíð prjónapils og rúllukragapeysur í stíl, jafnvel prónaður rúllukragakjóll (úr garðaprjóni) allt í einu mjög vinsælt. En ekki úr of þykkri ull, bæði í einlitu og svo „melange“.
Rúllukraginn er mjög heitt trend í vetur – eiginlega það heitasta ásamt kögrinu. Alveg frá rúllukragabolum í bómull með þröngum kraga og upp í mjúkar mohair/ cashmere ullarpeysur með stórum kraga en þó ekki of víðum. Þrengri kragar sem standa vel eru málið.
Skyrtur og dýramynstur
Skyrtur, síðar og stuttar, eru vinsælar í litum eins og ljósbláu, hvítu, gallaefni og svörtu. Enda er mjög flott að vera í skyrtu undir lokaðri stuttri peysu. Svo eru tiger og ýmis dýramunstur vinsæl, en tiger mynstur er eins og camo mynstrið, það dettur inn og út mjög hratt. En núna er tiger mynstur mjög heitt hjá stæstu tískuhúsunum og hér á Íslandi.
Margt nýtt í skóm
Þá eru það skórnir og þar er margt skemmtilegt að gerast. Stígvel í brúnu, svörtu og gráu rúskinni eða leðri eru alveg að detta inn. Langt síðan maður gekk í stígvélum enda eru ökklaskór svo vinsælir og passa vel við allt en þeir munu áfram verða mjög vinsælir.
Bæði er mikið um skó með rúnnaðri tá sem og támjóa skó og er hvoru tveggja jafnmikið inni. Ég er nýkomin af skósýningu í Milanó og þar voru rosalega flottir skór þar. Ítalskir skór eru náttúrulega bara yndi – fallegt leður og svo vel gerðir. Ég verð að segja að Spánverjar og núna Portúgalar eru líka að gera svo fallega og vandaða skó eiginlega ekki síður en Ítalir. En stemningin hjá Ítölunum á básunum á sýningum er svo skemmtileg… bjóða alltaf upp á geggjaða ítalska skó og besta espresso kaffið og stundum syngja þeir líka fyrir mann. Svo yndislega skemmtilegir og lífsglaðir með mikla sköpunargleði, algjörir hönnunarsnillingar með athyglisbrest og mikinn húmor. Gaman að vinna með þeim og þeir standa yfirleitt alltaf við sitt.
Spánverjarnir og Portúgalarnir eru mjög pottþéttir í þessum bransa. Portúgalar hafa að mínu mati alltaf verið eins og litli bróðir Spánverjanna en eru heldur betur að sanna sig hvað varðar gæði á leðri og vandaðar verksmiðjur eru víða. Þeir lifa fyrir vinnuna sína og samskipti, eru mjög fókuseraðir, skipulagðir og með stórt hjarta. Spánverjar eru klárlega með bestu skóna miðað við verð myndi ég segja og höfum við aukið innkaup okkar við þá mikið. Tyrkir eru heldur betur að reyna að stimpla sig inn á þessum markaði en Viðskiptaráð Tyrklands hefur verið með mikla herferð. Verið var að bjóða sumum gestum, þar á meðal okkur, frítt á sýningu hjá þeim í Tyrklandi og hótelgistingu í tvo daga. Þeir eru með fallega skó og eflaust þiggja margir þetta boð og hefja viðskipti við þá. Að mínu mati eru þeir bestir í herraskóm.
Gleymum ekki töskunum
Ekki má gleyma töskunum sem eru ómissandi fylgihlutur. Hliðartöskurnar eru vinsælar í ýmsum stærðum og eru töskur almennt aðeins að minnka. Sparitöskur eru mjög vinsælar, litlar kubbalagaðar, og eru hliðartöskur og svo kölluð „clutch“ með lítilli keðju áberandi. Stærri kögurtöskur er mjög vinsælar í mörgum litum eins og koníaksbrúnu, vínrauðu og svörtu. Bakpokar eru aftur inni, t.d. í flottu „used“ leðri sem og svörtu mjúku leðri og í brúnu.
Það er sem sagt margt spennandi að gerast og mikið nýtt.
Svava Johansen
Hér má sjá fyrri grein Svövu um hausttískuna.