Ekki eru allir jafn hrifnir af því að fara í bað og kjósa frekar sturtuna. Þá eru ekki einu sinni allir með baðkar heima hjá sér.
En hvað er hægt að gera til að eiga gæðastund í sturtunni og skapa smá „spa“ stemningu?
Búðu til þitt eigið sturtudekur
Hér er snilldar hugmynd að notalegri dekurstund í sturtunni. Eins og baðkúlur og annað slíkt sem notað er í baðkarið er hægt að útbúa nokkurs konar disk sem leysist upp í sturtunni. Og þú getur gert þetta allt sjálf/ur.
Það sem er líka sniðugt við þetta er að þetta er svo gott fyrir lungun og öndunarfærin – og getur losað um stíflur. Þá hefur þetta góð áhrif á ónæmiskerfið svo ekki sé nú talað um hversu notaleg lyktin er.
Það tekur ekki nema um hálftíma að undirbúa þessa dásemd og svo má geyma þetta til að nota í nokkrar vikur. Innihaldið er heldur ekki flókið.
Það sem þú þarft
Múffuform
Álbakka fyrir múffur (mætti jafnvel sleppa því)
Matarsóda
Kornsterkju (Maizenamjöl)
Vatn
Ilmkjarnaolíur (eucalyptus, lavender, rósmarín eða piparmyntu eða annað sem þú kýst)
Og þannig gerir þú svo
Blandaðu 1 matskeið af kornsterkju, 1 bolla af matarsóda og 1/3 bolla af vatni saman í glerskál.
Hrærðu saman með gaffli. Þetta á að vera þykkt, svona eins og þykkt lím, en á samt að leka aðeins. Settu meira vatn ef þér finnst þetta allt of þykkt.
Settu blönduna í múffuformin þannig að þau séu að ¼ full.
Þetta er síðan sett inn í 180 gráðu heitan ofn í 15 til 20 mínútur.
Taktu þá formin út og leyfðu þessu að kólna.
Eftir að þau hafa kólnað bættu þá 3 til 5 dropum af ilmkjarnaolíu ofan á hvert form. Það má líka alveg setja tvenns konar olíur og aðeins meira magn.
Leyfðu þessu að þorna í svona klukkutíma.
Þegar þetta er orðið alveg þurrt komdu þessu fyrir í vel lokuðu íláti – og þú getur svo notað þetta næstu vikurnar.
Síðan þegar þú ætlar að eiga notalega sturtustund og/eða losa um bólgur í öndunarfærum tekurðu bréfið utan af og leggur þetta á sturtugólfið og kveikir á sturtunni. Heitt vatnið bræðir þetta og þú nýtur vel lyktandi gufunnar.