Fyrir marga er erfitt að fasta og svona matargöt, eins og við hér á Kokteil, ráðum t.d. ekkert við það. Fasta hentar heldur ekki öllum og samkvæmt sérfræðingum getur ströng fasta líka verið hættuleg.
Í ljósi þess finnst okkur áhugavert að hægt sé að fara milliveginn – eða svo segja alla vega niðurstöður rannsókna. En niðurstöðurnar benda til þess að fimm daga eftirhermu fasta geti lengt lífið og minnkað líkur á krabbameini og sykursýki. Sýnt þykir að eftirhermu fastan hafi sömu áhrif og venjuleg fasta.
Fimm dagar í mánuði
Hér er verið að tala um að herma eftir föstu en ekki að fasta í orðsins fyllstu merkingu. Sérfræðingar við University of Southern California telja sig hafa sýnt fram á að fimm daga mataræði sem hermir eftir föstu geti hægt á öldrun, lengt lífið, bætt ónæmiskerfið og dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini.
Mataræðið snýst einfaldlega um að takmarka þær hitaeingar sem þú neytir og borða ekki nema á milli 35 til 50 prósent af því sem þú borðar venjulega til að gefa líkamanum færi á að hreinsa sig og endurnýjast. En góðu fréttirnar eru þær að þetta á aðeins við fimm daga í mánuði. Já FIMM daga í mánuði – og hina 25 dagana má borða það sem maður vill. Eða þannig séð, auðvitað samt með skynsemina að leiðarljósi.
Ekki þar fyrir því niðurstöðurnar sýndu jákvæðar breytingar hjá þáttakendum í rannsókninni hvort sem þeir borðuðu hollt eða ekki alla hina 25 dagana. Þeir sem þátt tóku voru á sérstöku mataræði, í fimm daga, sem var sérsniðið að þeim og þeirra líkama. Mataræði þeirra þessa daga var skipt niður í ákveðin hlutföll próteina, fitu og kolvetna og var miðað við ákveðið magn hitaeininga á dag.
Þetta hljómar hvorki flókið né erfitt – ekki einu sinni fyrir matargöt.