Þeir sem stunda hlaup og skokk kannast líklega flestir við hversu tvíþætt það getur verið að ganga stundum aðeins of langt og ögra sér svolítið þegar þeir hlaupa.
Eftir hlaupið ertu örþreytt/ur en líður samt alveg stórkostlega. En stuttu seinna fara svo verkir í vöðvum að segja til sín og þá er það sófinn og kælipoki sem tekur við.
Einfalt og náttúrulegt
Samkvæmt nýlegri rannsókn er einföld og náttúruleg leið til við þessu – og flestir leitast við að nota náttúrulegar leiðir í stað lyfja til að losna við aukaverkanir sem geta fylgt verkjatöflum.
Í þessari rannsókn komust sérfræðingar að því að kúrkúmín hefur stórgóð áhrif á þessa vöðvaverki. Og ef þú veist ekki hvað kúrkúmín er þá er það virka efnið í túrmerikrótinni. En sýnt þykir að bólgueyðandi áhrif þess séu sambærileg við áhrif steralyfja.
Rannsóknin leiddi í ljós að rótin dregur úr bólgum og vöðvaskaða – og hjálpar aumum og sárum vöðvum. Kúrkúmín getur því gagnast hlaupurum og jafnvel komið í veg fyrir slík eymsli og meiðsli.
Best að nota það við matseldina
Hægt er að taka kúrkúmín sem bætiefni við sárum vöðvum en svo er líka einstaklega einfalt að nota túrmerik við matseldina. Það má dreifa því yfir steikt grænmeti, bæta því við hrærð egg, setja örlítið út í te, í súpur og ýmsa aðra rétti.