Það er alls ekki sama hvernig þvotturinn er þveginn viljir þú halda flíkunum í góðu ástandi.
Hér eru nokkur góð ráð sem vert er að skoða
1. Þvottaleiðbeiningar
Alltaf að lesa á þvottaleiðbeiningarnar (litlu miðana) sem eru inni í hverri flík. Sumar flíkur má ekki setja í þvottavél og þarf að handþvo eða setja í hreinsun. Þetta á helst við ull, silki og rayon.
Það er ástæða fyrir þessum litlu miðum.
2. Flokka
Flokkaðu þvottinn. Ekki henda öllum gerðum og litum saman í eina vél. Í hvert skipti sem þú þværð flík rennur einhver litur úr henni við þvottinn, alveg sama hversu oft er búið að þvo hana.
Flíkur úr gallaefni, t.d. uppáhalds gallabuxurnar, verða örlítið ljósari því oftar sem þær eru þvegnar. Ef þú blandar hvítum og mjög ljósum litum saman við gallafötin í vélinni verða þessar flíkur fyrr sjúskaðar.
3. Blettir
Meðhöndlaðu bletti á flíkum áður en þú þværð þær – ekki á eftir. Ef þú vilt ná bletti úr þá er ekki ráðlegt að setja flíkina í vélina áður en þú hefur unnið eitthvað í blettinum. Sé flík sett í þvott án þess að meðhöndla blettinn verður mun erfiðara að ná honum úr eða hann festist alveg.
4. Aukahlutir
Fjarlægðu alla aukahluti af flíkum áður en þú setur í vélina. Þetta á við um beltissylgjur, pinna, krækjur og annað slíkt.
5. Vasar
Gættu þess að tæma alla vasa áður en þvegið er.
6. Sokkar
Ekki setja upprúlluð sokkapör í vélina – taktu þau í sundur.
7. Uppábrot
Losaðu um uppábrot á skálmum og ermum.
8. Bönd
Ef bönd eru á flíkinni, eins og t.d. á íþróttabuxum og hettupeysum, bittu þá böndin svo þau setji ekki allt í flækju í vélinni.
9. Viðkvæmar flíkur
Til að vera sérstaklega varkár með viðkvæmu flíkurnar er betra að setja þær í sér poka áður en þvegið er. Þetta á við um brjóstahaldara, fínar peysur og blússur, sokkabuxur og slíkt.
Snúðu viðkvæmum flíkum, eins og blússum, peysum og bómullarbolum á rönguna áður en þú þværð þær.
10. Gallaflíkur
Snúðu gallafötunum líka á rönguna áður en þú þværð þau – það fer betur með litinn og hinar flíkurnar sem eru með í vélinni.
11. Hnepptar flíkur
Ekki setja skyrtur og blússur hnepptar í vélina. Losaðu um alla hnappa, líka þessa sem eru á skyrtukrögunum.
12. Mýkingarefni
Ef þú ert vön/vanur að nota mýkingarefni ekki gera það þá í hvert skipti. Of mikil notkun fljótandi mýkingarefnis og fljótandi þvottaefnis getur smám saman myndað svepp í vélinni.
Í raun er engin þörf á því að nota mýkingarefni.