Það ættu allir að ráða við þetta því þessi glæsilega greiðsla er alveg einstaklega einföld í framkvæmd. Þess utan þá hentar hún bæði fyrir sítt, millisítt sem og styttra hár.
Þú byrjar á því að finna til litlar glærar teygjur og nokkrar spennur – því síðara sem hárið er því fleiri spennur þarftu að nota.
Áður en þú byrjar þá er ágætt að krulla hárið aðeins því það er betra að vinna með hárið þannig heldur en alveg slétt.
Byrjaðu á því að skipta hárinu eins og venjulega.
Taktu síðan hárið sitt hvorum megin, dragðu línu við eyrun og geymdu þá lokka.
Settu síðan teygju í allt hárið að aftan og búðu til tagl.
Búðu þá til holu og dragðu taglið í gegnum hana. Ýfðu síðan hárið aðeins til að gera meiri fyllingu og svo greiðslan verði frjálslegri.
Taktu þá lokkana tvo sem þú geymdir og settu þá í tagl. Búðu til holu og dragðu hárið í gegn. Til að fá meiri snúning er gott að draga það aftur í gegn. Dragðu það svo að lokum í gegnum holuna í fyrra taglinu.
Síðan er ágætt að setja teygju (eða teygjur) í taglið að neðan því það auðveldar að gera snúðinn sjálfan.
Rúllaðu svo hárinu upp í snúð og festu með spennum. Mundu að þú ert ekki að sækjast eftir fullkomnum snúð – þetta má alveg vera smá druslulegt.