Engar tvær konur eru eins og þess vegna munu konur alltaf vera jafn ólíkar og þær eru margar. En þrátt fyrir það eru miklar sveiflur í því hvernig konur eiga að vera í laginu – það er að segja hvað samfélaginu finnst og hvað er í tísku þá og þá stundina.
Hinn ákjósanlegi kvenlíkami hefur tekið á sig ýmsar myndir í gegnum aldirnar. Áherslur, straumar og tíska eru breytileg og það sem þykir flott og ómissandi þessa mánuðina er algjörlega háð duttlungum þessara sveiflna.
Það snýst allt um rassinn
Stundum eru lítil brjóst og ekkert mitti eftirsóknarverð og stundum þykja stór brjóst og mikið mitti ómissandi. En hver setur þessar línur og hvaðan koma þessar áherslur? Yfirleitt verða þessir tískustraumar til með fræga fólkinu, stjörnum og öðrum þekktum einstaklingum. Allt í einu verða stórir og þrýstnir rassar t.d. aðalmálið og þá snýst allt um rassinn. Sumar konur leggja það meira að segja á sig að fara í aðgerð til að fá stærri og þrýstnari rass.
Það er áhugavert að skoða hvernig ímyndin um líkamsvöxt kvenna hefur farið í hringi og breyst í gegnum aldirnar. Á dögum Kleópötru drottningar Egyptalands þótti ákjósanlegt að konur væru bæði með grannar axlir og mitti. En á tímum Rómaveldis hins vegar áttu þær að vera með ávalan maga, mjaðmamiklar og með rjómahvíta húð.
Áfram héldu þessar ímyndir að breytast. Upp úr 1920 þótti síðan eftirsóknarvert að vera tágrannur með strákalegan líkama. Konurnar áttu sem sagt að vera mittis-, mjaðma- og brjóstalausar. Síðan var það Gullöld Hollywood þegar konur með línur báru af og voru eins og stundarglas í laginu með mjótt mitti og góð brjóst. Svo komu grönnu hippatýpurnar með unglingslega útlitið, síðan hávöxnu íþróttalegu eróbikktýpurnar sem voru grannar en samt með línur, þá voru það horuðu heróíntýpurnar sem áttu helst að líta út fyrir að vera kynlausar og að lokum sá líkami sem þykir eftirsóknarverður í dag.
Og í dag
Þessi árin eiga konur helst að vera með stór brjóst, stóran og þrýstinn rass, flatan maga og bil á milli læranna. Ef við skoðum enn nánar hvernig hið eftirsóknarverða útlit í dag er þá er það nokkurn veginn svona; blá augu, þrýstnar fullar varir, lítið sætt nef, hárlaus sólbrúnn líkami, langir leggir, litlir fætur, þrýstinn rass, stæltir magavöðvar, mjaðmir eins og á ungum drengjum, stæltir handleggir og fullkomin dúkkubrjóst.
Til að öðlast þetta eftirsóknarverða útlit leggjast konur gjarnan undir hnífinn
En eins og gefur að skilja ná fæstar konur því að vera með líkama sem er í tísku. Enda alveg vonlaust. Miðað við hvernig áherslurnar í vaxtarlagi sveiflast eru sumar konur einfaldlega fæddar á rangri öld eða vitlausum áratug þegar kemur að vaxtarlagi.
En skiptir það nokkru máli?
Eru konur ekki bara bestar nákvæmlega eins og þær eru – svona ólíkar og margbreytilegar?
Gleymum heldur ekki að sjálfstraust er alltaf í tísku og kona sem geislar af sjálfstrausti er ætíð flott og glæsileg!