Vísindamenn við Harvard-háskólann telja sig hafa fundið æskugenið, þ.e. genið sem lætur fólk líta út fyrir að vera miklu yngri en það er.
Sérfræðingarnir telja að þetta gen geti látið fólk líta út fyrir að vera tíu árum yngri en það raunverulega er.
Í rannsókninni kom einnig í ljós að genið er algengara hjá svörtu fólki en hvítu – en aðeins tíu prósent hvítra hafa þetta gen og 20 prósent svartra. Úrtakið í rannsókninni var um ein milljón manns.
Að detta í genapottinn
Áður var talið að dökk húð væri unglegri og minna hrukkótt vegna litarefnis hennar og einnig vegna þess að dökk húð hefur betri vörn gegn sólargeislum. En það er víst miklu meira í þessu en það. Nú er vitað að dökka húðin hefur önnur sérkenni sem hefur víst góð áhrif á öldrunina.
Segja má að þeir sem hafa þetta æskugen hafi dottið í genapottinn. Nokkrar frægar leikkonur hafa t.d. klárlega dottið í þennan pott og virðast eldast hægar en aðrar konur. Leikkonan Halle Berry, sem er 51 árs, á svarta móður og hvítan faðir en hún þykir ein af þeim heppnu. Ætli leikkonan Jennifer Aniston, 49 ára, sé ekki líka ein af þeim sem dottið hefur í pottinn?
En læknar benda þó á að ekki sé nóg að hafa góð gen því umhverfisáhrif, eins og reykingar og sól, skipti líka miklu máli.
Er æskubrunnurinn fundinn?
Æskubrunnurinn er því fundinn en því miður eru það ansi fáir sem hafa aðgang að honum. Engu að síður kemur þessi uppgötvun þeim vel sem framleiða krem og aðrar vörur fyrir húðina. En stuðst verður við rannsóknirnar til að breyta og betrumbæta þær vörur sem ætlaðar eru húð sem er að eldast. Það má því búast við nýjum og endurbættum hrukkukremum næstu árin.