,,Ertu ekki hamingjusöm“ spyr fólk mig þegar það hittir mig og kemst að því að ég hef misst 27 kíló. Þá segi ég með bros á vör ,,þetta er ákveðinn léttir“.
Hamingja mín aldrei snúist um vigtina
Það er merkilegt að álíta að ég hljóti að eignast hamingjuna við það að missa 50 smjörlíkisstyki í kílóum talið. Ég hef alltaf búið við hamingju sem er mikið lífslán og ég minni mig á að þakka fyrir það á hverjum degi. En hamingja mín hefur aldrei snúist um vigtina. Hamingja mín hefur snúist um ástvini, starfið mitt og samferðamenn. Hamingja mín snýst um að elska og vera elskuð. Hamingja mín snýst um það að finna ríkan tilgang með lífinu. Þar á fólkið mitt heiðurssess og svo hef ég fengið að sinna kærleiksþjónustu í starfi mínu sem prestur sem er hlaðið tilgangi á hverjum degi. Auðvitað verður lífið flóknara þegar maður burðast með mörg aukakíló og það telur úr manni kjark á margan hátt. Það verður bras að reima skóna, það er ömurlegt að fara í fjallgöngu því í stað þess að virða fyrir sér fallegt landslagið fer öll orkan í að gefast ekki upp að fara fetið, en þetta snýst ekki um grundvallarhamingju.
Eins og kílóin elski mann og umfaðmi
Mér þykir gott að fá uppörvun frá fólki sem áttar sig á því að maður er að endurheimta heilsuna en ekki hamingjuna. Það er nefnilega heilmikið átak að grennast og ekki síst þegar maður eldist, því þá er eins og kílóin elski mann og umfaðmi og geti ekki hugsað sér að segja skilið við mann. Ég hitti konu í ræktinni í haust, sem ég þekki ekkert í raun og veru, og hún fór að tala um hversu dugleg ég hafi verið í heilsueflingu og svo bætti hún við ,,ég ætla að minnast á það í hvert sinn sem ég sé þig.“ Töff!
Eitt af því sem ég gerði þegar ég hóf vegferð í að endurheimta heilsu mína fyrir einu og hálfu ári var að ég las mikið um næringu, árangur fólks og persónulega reynslu. Það hafði gríðarlega hvetjandi áhrif. Þess vegna er ég að skrifa þessar hugleiðingar mínar og ætla að gera aðeins meira af því á þessari flottu nýju vefsíðu. Þetta er í raun svona endurgjöf, mig langar að þakka öllu því góða fólki sem hefur styrkt mig með því að deila reynslu sinni, sigrum og vonbrigðum. Flest af þessu fólki talaði einmitt um léttinn við að léttast en það ræddi ekki að það hefði loksins eignast hamingjuna við það að grennast.
Liggur ekkert sérstaklega í mínu eðli að vera hófsöm
Það er nefnilega stundum ferlega leiðinlegt að vera í átaki. Þegar þú mætir í veislur og mannmót þarftu að passa að vera ekki svöng af því að þú ætlar ekki borða að neinu viti af veisluföngunum, svo þegar allir eru komnir með roða í vanga af fínu rauðvíni þá sýpur þú varfærnislega á sódavatninu og reynir að leggjast ekki í neina sjálfsvorkunn, en trúðu mér það er stundum stutt í hana. Elskulegur eiginmaður minn sagði mér frá því að þeir bræðurnir hafi verið svo lystugir sem litlir strákar og mamma þeirra hafði oft gefið þeim vel af kæfubrauði áður en farið væri í veislur svo að rauðhærðu og krafmiklu strákarnir hennar væru ekki óseðjandi við matarborðið. Ég er pínu svona þessa dagana, passa að fara aldrei svöng í veislur þannig að hægt sé velja af skynsemi. Það liggur nefnilega ekkert sérstaklega í eðli mínu að vera hófsöm, en ég get auðvitað tileinkað mér það eins og annað fólk. Ég er ekki öguð í eðli mínu, en ég get tileinkað mér það eins og aðrir.
Ég vil svo fá að óska henni nöfnu minni til lukku með vefinn og á næstu dögum mun ég láta aðeins í mér heyra á þessum vettvangi.
Lifið heil.
Jóna Hrönn Bolladóttir